Fótbolti

Voronin orðaður við Valencia

Voronin hefur slegið í gegn í Þýskalandi eftir að hann fór þangað frá Liverpool
Voronin hefur slegið í gegn í Þýskalandi eftir að hann fór þangað frá Liverpool AFP

Úkraínski framherjinn Andrei Voronin hjá Liverpool hefur verið orðaður við spænska félagið Valencia.

Voronin er á lánssamningi hjá Hertha í Berlín þar sem hann hefur spilað eins og engill í vetur og hefur t.d. skorað sjö mörk í síðustu fimm leikjum sínum fyrir þýska úrvalsdeildarfélagið.

Hertha er í bullandi toppbaráttu í úrvalsdeildinni og hafa forráðamenn félagsins lýst yfir mikilli ánægju með Liverpool-manninn. Voronin sjálfur hefur líka lýst yfir áhuga sínum á að ganga í raðir Hertha, en samningaviðræður hafa lítið þokast í þá átt.

Sagt er að Valencia á Spáni horfi nú til Voronin til að leysa spænska landsliðsmanninn David Villa af hólmi, því útlit er fyrir að félagið verði að selja hann til að forðast gjaldþrot.

Hertha á ágæta möguleika á að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni ef svo fer sem horfir og þá gæti félagið eflaust gengið frá kaupum á Voronin frá Liverpool. Sagt er að enska félagið vilji fá 4 milljónir evra fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×