Hinn umdeildi leikstjóri Michael Moore ætlar að gera kvikmynd um fjármálakreppuna. Hann kallar kreppuna stærsta svindl í sögu Bandaríkjanna.
Á vefsíðu sinni biður Michael Moore alla þá viðskiptamenn, núverandi og fyrrverandi, sem hafa kjark og þor að hafa samband við sig.
"Ég er viss um að margir af ykkur vita hvað hefur viðgengst í kringum þetta svindl," segir Moore á vefsíðu sinni. "Þið liggið með upplýsingar sem almenningur í Bandaríkjunum á rétt á að vita um. Ég bið ykkur um hjálp við að afhjúpa þetta stærsta svindl í sögu Bandaríkjanna."
Moore fullvissar síðan viðkomandi um að nafns hans verði hvergi getið. Hann lýkur orðum sínum með því að kvkmynd hans verði kynnt nánar í Cannes í maí.