Viðskipti innlent

Þrjú félög falla um stærðarflokk

Nasdaq OMX Iceland kauphöllin
Nasdaq OMX Iceland kauphöllin

Eftir verðfall hlutabréfa síðustu misseri og hrun bankakerfisins falla engin félaga Kauphallarinnar í flokk stórra fyrirtækja. Einungis þrjú ná því að teljast meðalstór og restin eru lítil félög.

Í endurflokkun félaga sem skráð eru í Nasdaq OMX Nordic kauphallirnar í byrjun vikunnar voru nítján félög færð niður um stærðarflokk. Þar á meðal eru íslensku hlutafélögin Bakkavör Group, Eimskipafélag Íslands og Icelandair Group. Þau voru í flokki meðalstórra félaga, en teljast nú til lítilla.

Einungis tvö félög af nítján, sænsku félögin JM AB og PA Resources AB, fóru úr því að vera stór í að vera meðalstór, en Samkvæmt skilgreiningu kauphalla­samstæðunnar þarf markaðsvirði skráðra félaga að vera einn milljarður evra hið minnsta til þess að þau geti talist stór (e. Large Cap). Lítil félög (Small Cap) eru þau sem eru undir 150 milljóna evra virði. Meðalstór félög (Mid Cap) eru svo þau sem eru þar á milli, yfir 150 milljónum evra, en undir milljarði.

Þrjú félög á aðallista Kauphallar­innar hér ná því að vera yfir 150 milljónum evra að stærð, en það eru Össur, Marel Food Systems og Føroya banki. 79 félög á Nasdaq OMX Nordic halda hins vegar flokki sínum meðan á svonefndu breytingartímabili stendur, eða í tólf mánuði og verður þá lagt mat á það á ný hvort þau verði flutt um flokk. Þetta er gert til að lágmarka sveiflur á listanum. Þannig eru Eik Banki og Atlantic Petroleum enn skráð í flokk meðal­stórra félaga, þótt markaðsvirði þeirra sé nú undir settum mörkum.- óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×