Fótbolti

Klinsmann: Ribery er ekki til sölu

Nordic Photos/Getty Images

Jurgen Klinsmann, þjálfari Bayern Munchen, segir af og frá að félagið muni selja franska landsliðsmanninn Franck Ribery sem í dag er einn eftirsóttasti leikmaður Evrópu.

Ribery sló í gegn á HM í Þýskalandi árið 2006 og hefur farið mikinn með Bayern og franska landsliðinu á yfirstandandi leiktíð. Hann er samningsbundinn Bayern út 2011.

"Við erum búnir að taka ákvörðun um framtíð Franck og niðurstaðan er sú að við ætlum ekki að sleppa honum," sagði Klinsmann í samtali við staðarblöð í Þýskalandi.

"Ribery veit að hann er að spila með stórliði. Við getum keppt við bestu lið Evrópu og ég er ekki frá því að við séum framar en mörg þeirra í þeim aðstæðum sem við höfum skapað hérna. Við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni og Franck er lykilmaður í þeim plönum. Hann veit að við munum halda áfram að styrkja liðið í næsta félagaskiptaglugga," sagði Klinsmann.

Karl Heinz Rummenigge, tæknistjóri Bayern, tekur í sama streng. "Franck er samningsbundinn fram í júní 2011 og fer ekki fet - ekki fyrir alla peninga í heiminum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×