Fótbolti

Hoeness: Franck Ribery aðeins til sölu fyrir brjálæðislega háa upphæð

Ómar Þorgeirsson skrifar
Franck Ribery.
Franck Ribery. Nordic photos/Getty images

Uli Hoeness stjórnarformaður Bayern München hefur staðfest að félagið vanti nú bara að finna sér hægri bakvörð og þá verði viðskiptum þeirra lokið í sumar.

Það gæti þó vissulega breyst ef fari svo að félagið ákveði að selja Franck Ribery en það mun þurfa afar hátt kauptilboð til að svo verði ef marka má nýlegt viðtal við Hoeness.

„Við viljum ekki selja Ribery og höfum sagt að við viljum aðeins eiga viðskipti undir ákveðnum kringumstæðum. Það er að segja ef kaupandinn er tilbúinn að borga brjálæðislega háa upphæð," segir Hoeness sem ítrekar að næsta mál á dagskrá sé að finna öflugan hægri bakvörð.

„Eina staðan á vellinum sem við erum að skoða í augnablikinu er hægri bakvarðastaðan. Það er annars rétt sem dagblöðin segja að við höfum áhuga á að fá Jose Bosingwa frá Chelsea," segir Hoeness yfirlýsingaglaður í samtali við dagblaðið tz.

Bosingwa kom hins vegar til Chelsea síðasta sumar og þótti standa sig vel á sinni fyrstu leiktíð á Englandi og því ólíklegt að bikarmeistararnir vilji selja Portúgalska landsliðsmanninn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×