Fótbolti

Franck Ribery er ekki til sölu eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribery, leikmaður Bayern Munchen.
Franck Ribery, leikmaður Bayern Munchen. Mynd/AFP

Þýska liðið Bayern Munchen hefur ekki í hyggju að selja aðalstjörnu sína, franska landsliðsmanninn Franck Ribery, þrátt fyrir stöðugan orðróm um að hann væri á leiðinni til stórliða á Englandi eða á Spáni.

„Það skiptir ekki máli hversu margar milljónir eru lagðar á borðið því það er alltaf ákvörðun Bayern Munchen hvort Franck verður seldur eða ekki. Við viljum ekki selja hann," sagði Karl-Heinz Rummenigge stjórnarmaður í félaginu í viðtali við TZ.

Framkvæmdastjórinn Uli Hoeness tjáði sig einnig um málið í Bild. „Þegar maður heyrir að það sé verið að bjóða 125 milljónir evra í Kaka þá er ljóst að markaðsverð Franck er meira en 100 milljónir evra. Ég vil samt ekki gefa upp neina tölu því við viljum ekki selja hann," sagði Uli Hoeness.

Ribery er með samning við Bayern Munchen til ársins 2011 en hann hefur verið orðaður við Chelsea, Manchester United, Real Madrid og Barcelona á undanförnum vikum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×