Fótbolti

Ummæli Lehmann vekja reiði Bayern

Rummenigge er ósáttur við yfirlýsingar Lehmann
Rummenigge er ósáttur við yfirlýsingar Lehmann NordicPhotos/GettyImages

Þýski markvörðurinn Jens Lehmann hjá Stuttgart er jafnan með munninn fyrir neðan nefið og nýjustu ummæli hans hafa gert allt vitlaust í herbúðum Bayern Munchen.

Lehmann lýsti því yfir í blaðaviðtali á dögunum að Stuttgart hefði fyrir löngu verið búið að tryggja sér meistaratitilinn ef það hefði dómarana í vasanum eins og toppliðin Wolfsburg og Bayern Munchen.

Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, tók ekki vel í þessa sprengju frá fyrrum Arsenal-markverðinum og segist ekki trúa öðru en að hann verði sektaður fyrir ummælin.

"Lehmann er að saka dómara í deildinni um óheilindi og það er fáránlegt. Ég hef mikinn áhuga á að sjá hvað þýska knattspyrnusambandinu finnst um þessi ummæli," sagði Rummenigge.

Hann segir greinilegt að Lehmann ætli sér að reita Bayern-menn til reiði fyrir lokaleikinn í úrvalsdeildinni um helgina - en hann er einmitt gegn Stuttgart á laugardaginn.

"Auðvitað er Lehmann að reyna að snúa hlutunum gegn okkur fyrir leikinn," sagði Rummenigge.

Hann viðurkennir að Bayern eigi litla möguleika á titlinum. "Baráttan um titilinn er 99,9% búin. Við verðum ánægðir ef við vinnum Stuttgart um helgina því þá tryggjum við okkur öruggt sæti í meistaradeildinni á næstu leiktíð. Ef Wolfsburg vinnur titilinn, verður það af því liðið hefur spilað frábæran bolta í vetur - ekki af því dómararnir hafa hjálpað þeim," sagði Rummenigge.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×