Viðskipti innlent

Erlendir fjárfestar vildu fá Icelandair

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar: skrifar
Einar Sveinsson
Einar Sveinsson

„Nokkrir aðilar sýndu áhuga á að kaupa áhrifahlut í flugfélaginu," segir Einar Sveinsson, einn eigenda fjárfestingarfélaganna Máttar og Nausta og stjórnarmaður í Icelandair Group.

Félögin áttu 39 prósenta hlut í Icelandair Group í tvö ár þar til í fyrradag þegar Íslandsbanki nýtti utanþáguheimild Fjármálaeftirlitsins og tók hann með veðkalli.

Erlendir fjárfestar og fyrirtæki, einn frá Bandaríkjunum en hinir evrópskir, höfðu áhuga á að kaupa hlut félaganna í Icelandair Group. Því til viðbótar hafði norræna flugfélagið SAS viðrað áhuga á því ári fyrr. Áhuga hinna varð vart þegar halla tók undan fæti í íslensku efnahagslífi í fyrra.

Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að Einar og fjölskylda hans hafi verið mótfallin öllum hugmyndum um sölu á Icelandair-hlutnum út fyrir landsteina í hendur erlendra aðila. Var því afráðið að sitja af sér hremmingar í efnahagslífinu í stað þess að draga úr áhættunni og selja hlutinn. Viðræður voru þegar hafnar við Glitni (nú Íslandsbanka) um endurskipulagningu Máttar í kjölfar þeirra vandræða sem Milestone, félag bræðranna Karl og Steingríms Wernerssona, hafði ratað í.

„Ég hafði ekki áhuga á að selja félagið útlendingum. Það gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngum við útlönd og má segja að það sé hluti af sjálfstæði landsins," segir Einar og bætir við að viðræður hafi aldrei farið af stað.

Gengi bréfa Icelandair Group stóð í 27,75 krónum á hlut í byrjun síðasta árs en var komið niður í 13,10 í lok þess. Verðmæti eignarhlutar félaga bræðranna fór úr 10,5 milljörðum króna niður í fimm milljarða í árslok. Samkvæmt yfirtökuverði Íslandsbanka, sem miðaðist við lokagengi bréfa í félaginu á föstudag, nemur heildarverðmætið 1,7 milljörðum króna.

Einar segir stjórnendur félagsins ósátta við yfirtökuna. Hins vegar verði hvorki farið í mál við Íslandsbanka vegna málsins né mats krafist á yfirtökuverðinu þar sem ákvörðun bankans um yfirtöku byggðist á lánasamningi.

Íslandsbanki varð umsvifamesti hluthafi Icelandair Group í kjölfar yfirtökunnar á mánudagsmorgun og situr nú á 47 prósenta hlut í flugrekstrarfélaginu. Sömu örlög eru sögð bíða Langflugs ehf, næststærsta hluthafa Icelandair Group sem á tæplega 24 prósenta hlut. Þar um borð eru Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, sem á tvo þriðju hluta á móti fjárfestingarfélaginu Gift.

Eftir því sem næst verður komist þraut félagið örendi vegna skulda og hafði verið stýrt með óformlegum hætti úr höfuðstöðvum Landsbankans um nokkurra mánaða skeið. Ekki náðist í fyrirtækjasvið Landsbankans til að leita eftir svörum á því hvenær hluturinn yrði formlega tekinn yfir af bankanum. Þegar það verður munu bankarnir stýra sjötíu prósentum af hlutafé Icelandair Group.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×