Viðskipti innlent

Frumtak fjárfestir í AGR

Eggert Claessen framkvæmdastjóri Frumtaks segist vænta mikils af þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í. Markaðurinn/Anton
Eggert Claessen framkvæmdastjóri Frumtaks segist vænta mikils af þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í. Markaðurinn/Anton
Frumtak hefur keypt hlut í birgðastýringarfyrirtækinu AGR - Aðgerðagreiningu fyrir hundrað milljónir króna. Þetta er önnur fjárfesting sjóðsins í sprotafyrirtæki á árinu. Ekki liggur fyrir hversu stór hluturinn er en hann er árangurstengdur. Hin fjárfesting Frumtaks fyrir jafn háa upphæð var í hugbúnaðarfyrirtækinu Trackwell í febrúar.

AGR var stofnað árið 1998 í framhaldi af rannsóknarverkefnum við verkfræðideild Háskóla Íslands og hefur undanfarin ár þróað aðferðir og hugbúnað fyrir alþjóðlegan markað.

Helsta afurð AGR er AGR Inventory Optimiser sem innleitt hefur verið hjá yfir 50 fyrirtækjum í ellefu löndum. Þróunar­vinna félagsins hefur alfarið farið fram hérlendis í samstarfi við fyrirtæki í vörudreifingu, framleiðslu og verslun.

Helstu markaðssvæði AGR eru í Evrópu. Fyrirtækið rekur tvær skrifstofur undir merkjum AGR í Bretlandi og Danmörku.

„Sjóðurinn hefur nú sett verulegar fjárhæðir í tvö fyrirtæki sem eru að vinna að markaðssetningu erlendis og eiga að skila árangri innan þriggja til fimm ára. Fjárfesting í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem þessum flýtir fyrir endurreisn okkar ef allt gengur eftir," segir dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks, sem fjárfestir í sprotafyrirtækjum sem vænleg þykja til vaxtar og útrásar.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×