Fótbolti

Van Gaal: Toni má leita sér að öðru félagi

Ómar Þorgeirsson skrifar
Luca Toni.
Luca Toni. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Louis van Gaal hjá Bayern München hefur nú staðfest það sem þýskir fjölmiðlar héldu fram í gær að framherjinn Luca Toni ætti enga framtíð hjá þýska félaginu.

Ítalski landsliðsframherjinn hefur málað sig út í horn með alls kyns látalátum eftir að hann hefur fallið aftar í goggunarröðinni á þessu tímabili og van Gaal hefur fengið nóg.

„Leikmaðurinn sjálfur hefur sagst vilja fara frá félaginu og ef staðan er þannig þá er bara best að hann finni sér annað félag. Forráðamenn Bayern München taka auðvitað endanlega ákvörðun um hvað verður en ég hef líka mitt að segja um það," segir van Gaal í viðtali við vefmiðilinn forzaroma.info.

Ítölsku félögin AC Milan, Roma og Napoli auk enska félagsins West Ham hafa verið orðuð við kappann sem vill ólmur komast í lið þar sem hann getur spilað reglulega til þess að eiga möguleika á að komast í lokahópinn hjá landsliði Ítalíu fyrir lokakeppni HM næsta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×