Fótbolti

Lombardo: Margt líkt með Sampdoria nú og árið 1991

Ómar Þorgeirsson skrifar
Attilio Lombardo í leik með Lazio árið 2000.
Attilio Lombardo í leik með Lazio árið 2000. Nordic photos/AFP

Attilio Lombardo, fyrrum leikmaður Sampdoria og ítalska landsliðsins, hrósar knattspyrnustjóranum Luigi Del Neri og lærisveinum hans í Sampdoria í nýlegu viðtali við Primocanale en Sampdoria er sem stendur á toppi ítölsku serie A-deildarinnar ásamt Inter.

Lombardo var í sigurliði Sampdoria árið 1991 þegar liðið hampaði sínum eina deildartitli í sögu félagsins og vill Lombardo meina að margt sé líkt með liðinu núna og liðinu þá.

„Þetta snýst ekki bara um að bera framherjana Antonio Cassano og Giampaolo Pazzini saman við goðsagnirnar Roberto Mancini og Gianluca Vialli. Þetta snýst um liðið í heild sinni og þeir eru með góðan leikmannahóp og frábæran knattspyrnustjóra líkt og við höfðum á sínum tíma.

Ég veit samt ekki hvort að þeir nái að vinna titilinn eins og við gerðum en það yrði vitanlega frábært ef það myndi takast," segir Lombardo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×