Viðskipti innlent

Leiðbeiningar um stjórnunarhætti uppfærðar

Finnur Oddsson
Finnur Oddsson

Viðskiptaráð Íslands, Kauphöllin og Samtök atvinnulífsins kynna á fimmtudag uppfærðar leiðbeiningar um stjórnunarhætti fyrirtækja. Heldur hefur verið hert að reglunum og til stendur að auka eftirfylgni með því að fyrirtæki fari að þeim.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir að valdið hafi hálfgerðum vonbrigðum hversu dræmar viðtökur reglurnar hafi fengið á sínum tíma þegar þær voru gefnar út fyrir um fimm árum. Telur hann að ákveðið vanmat á því hversu auðvelt væri að innleiða svona reglur hafi átt sér stað og um leið á mikilvægi reynslu stjórnenda af því að hafa rekið sig á.

„Núna er augljóslega góður tími til að uppfæra og fara yfir þessar reglur á ný," segir Finnur og bætir við að reynslan sýni að félögum sem leggi sig eftir því að starfa eftir góðum stjórnunarháttum farnist betur þegar að þrengi, líkt og nú gerist.

Í framhaldinu segir Finnur svo standa til að framkvæma á því efnislegar úttektir hvernig völdum fyrirtækjum gangi að halda sig við reglurnar um góða stjórnunarhætti, en um það verði birtar skýrslur sem bæði fjölmiðlar og fjárfestar hafi aðgang að. Þetta verði hluti af því að byggja hér upp traust á markaði á ný.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×