Fjölnismenn tryggðu sér í gær sæti í Iceland Express deild karla í körfubolta með öruggum sigri á Val í öðrum leik liðanna í lokaúrslitum. Fjölnir vann leikinn 96-77 eftir að hafa náð mest 33 forustu í leiknum. Fjölnir vann því einvígið 2-0 þar sem liðið vann tíu stiga sigur, 88-78, í fyrri leik liðanna á heimavelli Vals.
Fjölnir varð aðeins annað liðið til að vinna úrslitakeppni 1. deildar karla án þess að hafa heimavallarrétt í neinu einvígi en Grafarvogsliðið endaði í 4. sæti deildarinnar í vetur. Hitt liðið var lið Stjörnunnar árið 2007 en Stjarnan kom þá í síðasta sæti inn í úrslitakeppnina.
Það er gaman að skoða byrjunarlið Fjölnis en í meirihluta eru þrír leikmenn sem eru ekki orðnir 18 ára gamlir. Þeir Ægir Þór Steinarsson og Arnþór Freyr Guðmundsson verða 18 ára í maí og júní og Haukur Helgi Pálsson er síðan einu ári yngri.
Þessir þrír áttu allir mjög góðan leik í gær og voru saman með 40 stig, 11 fráköst og 15 stoðsendingar. Haukur var með 18 stig, Arnþór skoraði 15 stig og Ægir var með 7 stig og 7 stoðsendingar.
Meðalaldur byrjunarliðs Fjölnis í gær var aðeins 20,2 ár en hinir tveir byrjunarliðsmenn liðsins voru hinn tvítugi miðherji Sindri Már Kárason og Bandaríkjamaðurinn Roy Smallwood sem er 28 ára gamall.