Fótbolti

Magath hættir með með Wolfsburg og tekur við Schalke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Felix Magath fráfarandi stjóri Wolfsburg.
Felix Magath fráfarandi stjóri Wolfsburg. Mynd/GettyImages

Felix Magath er á góðri leið með að gera Wolfsburg að þýskum meisturum en hann ætlar þó ekki að halda áfram með liðið. Magath er samt ekki á leið til síns gamla félags Bayern Munchen heldur hefur hann gert fjögurra ára samning við Schalke 04.

Hinn 55 ára gamli þjálfari stýrir sínum síðasta leik með Wolfsburg 23. maí og þykir mörgum undarlegt að hann skuli yfirgefa félagið sem er nánast öruggt með Meistaradeildarsæti næsta vetur og hefur þriggja stiga forskot þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir.

„Ég er ánægður að þetta sé komið út þótt að kringumstæðurnar séu ekki alltof góðar," sagði Magath á blaðamannafundi. „Eftir að hafa rætt við stjórnina hjá Wolfsburg þá tók ég þá ákvörðun í síðustu viku að ég myndi yfirgefa félagið. Það eru góðar ástæður fyrir þessari ákvörðun," sagði Magath.

Magath verður bæði stjóri og þjálfari Schalke en liðið rak þjálfarann Fred Rutten og stjórann Andreas Muller fyrr í vetur. Magath sjálfur var rekinn frá Bayern Munchen í febrúar 2007 þrátt fyrir að hafa gert þá að tvöföldum meisturum tvö tímabil á undan.

Magath hefur sannað sig enn á ný með því að taka Wolfsburg-liðið sem var um miðja töflu og gert það að besta liði Þýskalands en hann tók við liðinu sumarið 2007.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×