Viðskipti innlent

Skuldir Björgólfs jukust verulega

Björgólfur og húsið. Heimili Björgólfs Guðmundssonar hefur ávallt verið skráð á eiginkonu hans.
Björgólfur og húsið. Heimili Björgólfs Guðmundssonar hefur ávallt verið skráð á eiginkonu hans. Mynd/Samsett mynd

Persónulegar ábyrgðir Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi formanns bankaráðs Landsbankans, eru rúmlega átta milljörðum krónum hærri nú en í lok júní í fyrra.

Skuldbindingar Björgólfs og félaga honum tengdum gagnvart Landsbankanum nema nú 58 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem hann sendi fjölmiðlum í fyrradag. Samkvæmt hálfsársuppgjöri bankans í fyrra námu lán og skuldbindingar gagnvart honum tæpum 49,8 milljörðum króna, um 40 milljörðum meira en í lok árs 2007.

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í byrjun apríl og aftur í yfirlitinu frá í fyrradag eru skuldbindingarnar að nær öllu leyti tilkomnar vegna kaupa Björgólfs á helmingshlut Sunds í fjárfestingarfélaginu Gretti fyrir tveimur árum. Grettir átti 33 prósenta hlut í Eimskipi og rúm 28 prósent í Icelandic Group.

Í yfirliti yfir eignastöðu bankaráðsformannsins fyrrverandi gekkst hann í persónulegar ábyrgðir til að treysta veð bankans og því falli allar skuldir Grettis á hann. Eignir hans á móti 58 milljarða króna skuld við bankann eru metnar á um tólf milljarða.

Björgólfur sagðist áttavilltur í samtali við Fréttablaðið í gær og vissi ekki hverju hann muni halda eftir. Þar á meðal sé heimilið að Vesturbrún 22 í Reykjavík.

Húsið, sem er 229 fermetrar auk 32 fermetra bílskúr, hefur ætíð verið skráð á eiginkonu hans, Þóru Hallgrímsson. Fasteignamat þess nemur 58 milljónum króna. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×