Toyota hefur ákveðið að innkalla 1,3 milljónir Yaris-bíla vegna hugsanlegra galla í þeim hvað varðar öryggisbeltafestingar og stýrisbúnaði.
Fréttastofa hafði samband við Toyota umboðið hérlendis til að forvitnast um hve margir af þessum bílum væru á Íslandi. Þar var sagt að tilkynning um málið væri nýkomin í hús og verið væri að fara yfir málið. Yaris hefur verið einn vinsælasti smábíllinn á markaðinum hérlendis.
Samkvæmt fréttum í erlendum fjölmiðlum er um að ræða Yaris-bíla af árgerðunum 2005 til 2007 þar sem hugsanlega er um galla í öryggisbeletafestingum að ræða.
Hugsanlegur galli í stýrisbúnaði nær yfir árgerðirnar 2005 til 2008. Mögulegt er að í einhverjum tilvika séu til bílar með báða gallana.
Fólk sem á Yaris af þessum árgerðum er beðið um að fara á næsta verkstæði og láta kanna þessa tvo þætti í bílum sínum.