Erlent

Ljónið át ekki páfa

Óli Tynes skrifar
Leimmér að étann, leimmér að étann.
Leimmér að étann, leimmér að étann. MYND/AP

Rómverjar til forna höfðu þann leiða sið að fleygja kristnum mönnum fyrir ljón í hringleikahúsinu mikla. Og skemmtu sér óhóflega þegar ljónin tóku til matar síns.

Sagnfræðingurinn Tacitus segir frá því að það hafi ekki verið óalgengt fyrir keisara að æsa lýðinn upp gegn kristnum mönnum þegar eitthvað bjátaði á í Róm.

Semsagt að finna óvin til þess að draga athyglina frá hinum raunverulega vanda. Líklega hefur Gordon Brown lesið Tacitus.

Árið 64 þegar Róm brann hafði Neró ekki fyrr lagt frá sér fiðluna en hann kenndi kristnum mönnum um eldsvoðann. Í kjölfarið kættust ljónin.

Nú eru sem betur fer breyttir tímar. Þegar ítalskur sirkus skemmti Benedikt páfa æðsta manni kaþólskrar kristni í Vatikaninu á miðvikudag, fór vel á með hans heilagleika og ljónsunga sem var með sirkusinum.

Á meðfylgjandi mynd virðist þó sem eitthvað sé unganum að renna blóðið til skyldunnar því hann urrar og glennir sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×