Tony Lomas, stjórnandi hjá PricewaterhouseCoopers (PwC) segir að það sé ekki ætlunin að halda verslunarkeðjum Baugs til eilífðar. Þær verði seldar um leið og markaðsaðstæður batni enda vilji kröfuhafar fá fé í hendur fremur en eignarhluti.
Þetta kemur fram í breska blaðinu The Guardian sem segir að þessi ummæli séu hin fyrstu sem komi fram opinberlega um að sala á verslunarkeðjunum standi fyrir dyrum í framtíðinni. Sem kunnugt er mun PwC stjórna Baugi í Bretlandi meðan á greiðslustöðvun félagsin stendur.
"Kröfuhafar eru á höttunum eftir peningum en við viljum bíða betri tíma en nú eru til að koma eignunum í verð," segir Lomas. "Við verðum að selja þessar eignir, greiðslustöðvunin mun ekki vara að eilífu."
Fram hefur komið hjá skilanefnd Landsbankans að þar er vilji fyrir því að bíða lengi, það er meir en ár eða tvö, áður en eignir Baugs verða boðnar til sölu.