Körfuboltamaðurinn Jón Arnór Stefánsson verður í nærmynd í þættinum Utan vallar á Stöð 2 Sport klukkan 20:35 í kvöld.
Landsliðsmaðurinn hefur komið víða við á glæsilegum ferli þar sem hann hefur m.a. spilað með sterkum liðum á Ítalíu, Spáni og í Rússlandi - auk þess sem hann var um hríð á mála hjá NBA liði Dallas Mavericks.
Jón er nú kominn heim á klakann og er byrjaður að spila með KR á ný, en þar hefur hann ekki tapað einum einasta leik það sem af er vetrar.
Í myndbrotinu með fréttinni kemur Jón inn á það hvernig hlutirnir gengu fyrir sig þegar hann var atvinnumaður með liði Pétursborgar í Rússlandi, þar sem launagreiðslur til leikmanna áttu það til að vera nokkuð sérstakar.