Lloyds bankinn breski gæti reynt að selja annars flokks hlutabréfasafn (secondary private equity) sitt í því sem Financial Times kallar stærstu slíka útsölu í heimi.
Kaupþing og Baugur ásamt sir Tom Hunter gætu lent í þessari sölu enda voru margar af stærri fjárfestingum HBOS bankans á þessu sviði gerðar í samvinnu við þá.
Lloyds bankinn sameinaðist HBOS bankanum fyrir mánuði síðan og horfir nú fram á tap upp á 10 milljarða punda, eða 1640 milljarða kr., af rekstri HBOS og þarf einhvern veginn að bregðast við því.
HBOS gerði um 130 fjármálasamninga þar sem bankinn tók yfir skuldir og hlutafé en að sögn Financial Times voru nokkrir af stærri samningunum gerðir með Kaupþingi, Baugi og sir Tom Hunter.
Talið er að verðmæti þessara eigna HBOS liggi á bilinu 4 til 6 milljarðar punda. Fjárfestar sem sérhæfa sig í kaupum á illa stæðum eignum eru þegar farnir að hringsóla í kringum Lloyds í von um að „veislan" hefjist fyrr en seinna.