Körfuknattleikskappinn Jakob Örn Sigurðarson skrifaði í gærkvöldi undir eins árs samning við sænsku meistarana í Sundsvall Dragons.
„Mér líst vel á þetta og er spenntur fyrir því að spila með þessu sænska félagi," sagði Jakob Örn við Vísi.
„Þetta er gott lið og traustur klúbbur sem sýndi mér mikinn áhuga. Ég var einnig með tilboð frá Danmörku og Belgíu sem ég hafnaði. Svo voru einhver lið á Spáni að skoða mig en ég ákvað að stökkva á þetta," sagði Jakob.
Það verður sjónarsviptir af Jakobi úr íslenska boltanum en hann kom heim fyrir síðasta tímabil og spilaði frábærlega fyrir Íslandsmeistara KR.