Viðskipti innlent

Símtöl dýrari eftir breytingar

Póst- og fjarskiptastofnun vekur á vef sínum athygli á rétti neytenda til að fá endurgjaldslaust sundurliðun símatala. Á grundvelli slíkra gagna geti þeir svo valið þá áskriftarleið sem hagkvæmust er fyrir þá.
Póst- og fjarskiptastofnun vekur á vef sínum athygli á rétti neytenda til að fá endurgjaldslaust sundurliðun símatala. Á grundvelli slíkra gagna geti þeir svo valið þá áskriftarleið sem hagkvæmust er fyrir þá.
Miðað við almennar verðskrár símafyrirtækja má gera ráð fyrir að dulin verðhækkun felist í breyttri gjaldtöku eftir lengd símtala. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vekur athygli á þessu á vef sínum.

„Þegar símtal hefst er fyrst tekið upphafsgjald. Þá um leið er einnig gjaldfært fyrir lágmarkslengd. Þegar lágmarkslengd er liðin er gjaldfært fyrir hvert byrjað tímabil. Tímabil lágmarkslengdar og tímabils er táknað í gjaldskrá með tveimur tölum með deilistriki á milli. Til dæmis þýðir tímamælingin 60/10 að lágmarkslengdin miðast við 60 sekúndur og síðan er gjaldfært fyrir hverjar byrjaðar 10 sekúndur eftir það. Notandi sem talar í 62 sekúndur greiðir þannig upphafsgjald, lágmarkslengd 60 sekúndur og 10 sekúndur þar til viðbótar, þó hann hafi einungis notað 2 sekúndur af þessum 10," segir á vef PFS.

Bent er á að í mars hafi Síminn breytt tímamælingum sínum úr 60/10 í 60/60 og Vodafone fari sömu leið í maí. „Samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi við tímamælingu símtala er aldrei rukkað fyrir minna en 60 sekúndur og eftir það fyrir hverjar byrjaðar 60 sekúndur, þar sem áður voru hverjar byrjaðar 10 sekúndur. Það hefur í för með sér að símtöl sem eru lengri en 60 sekúndur munu nú hækka í verði, að öðru óbreyttu," segir PFS og bendir á að eftir breytinguna megi gera ráð fyrir að í hverju símtali sé að meðaltali greitt fyrir 30 ónotaðar sekúndur í stað fimm sekúndna áður. „Meðalsímreikningur gæti hækkað yfir 10 prósent í verði miðað við almenna verðskrá."

Önnur fyrirtæki en Síminn og Vodafone hafa ekki tilkynnt PFS um breytingar á tímamælingum. Tal hefur notað fyrirkomulagið 60/60 og Nova 30/30.-óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×