Skoðun

Tækifæri í súginn

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir skrifar um álver í Helguvík

Milli jóla og nýárs var haldinn fundur í stjórn Orkuveitunnar en þar var samþykkt að undirrita samning við Norðurál Helguvík ehf um sölu á orku fyrir álver sem gert er ráð fyrir að framleiði 360 þúsund tonn af áli á ári. Gildandi starfsleyfi gerir ráð fyrir 250 þúsund tonnum þannig að hér er um aukningu að ræða og hlýtur að þurfa nýtt starfsleyfi.

Samningurinn þýðir að 250 megavött frá Hellisheiðarvirkjun, Hverahlíð auk Gráhnjúka fara öll í álframleiðslu. Á mannamáli þýðir þetta að möguleikar Orkuveitunnar til að snúa við blaðinu í stóriðju- og atvinnumálum eru fyrir bí. Við stjórnvölinn í Orkuveitunni sitja flokkarnir sem leiddu mesta stóriðjutímabil Íslandssögunnar. Þessir sömu flokkar bera nú ábyrgð á nýsamþykktum samningi.

Fyrri samningur milli Orkuveitunnar og Norðuráls rann út um áramótin og hefði því verið um að ræða einstakt tækifæri til að endurmeta orkusölu frá Orkuveitu Reykjavíkur til framtíðar í þágu sjálfbærrar þróunar og fjölbreytts atvinnulífs. Margítrekað hefur verið mikilvægi þess að dreifa áhættunni, setja ekki öll eggin í sömu körfuna og nýta orkuauðlindirnar í þágu fjölbreytni og vistvænnar framleiðslu.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Norðurál geti vænst sérstakra ívilnana ríkisstjórnarinnar vegna framkvæmdarinnar, verið undanþegið hluta opinberra gjalda auk annarra tilhliðrana sem hlýtur meðal annars að fela í sér nýtt starfsleyfi fyrir stærra álver. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur engin fyrirheit uppi um að snúa af braut stjóriðjustefnunnar. Fagra Ísland Samfylkingarinnar er endanlega fyrir bí.

Samningurinn kom til afgreiðslu með afar stuttum fyrirvara, leynd hvílir yfir orkuverðinu og kunnuglegt pukur umlykur umræðuna alla. Hér er um að ræða verðmæti sem almenningur á í félagi og er óverjandi með öllu að ráðstafa þeim án þess að fram fari upplýst og heiðarleg umræða um þann gjörning sem hér hefur farið fram og þá forgangsröðun sem þar endurspeglast. Undirrituð greiddi ein atkvæði gegn samningnum á stjórnarfundinum.

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×