Eigandi breska knattspyrnuliðsins Wigan, David Whelan, er einn þeirra fjölmargra aðila sem ekki sér fram á að geta nálgast sparifé sitt sem hann lagði inn í Singer & Friedlander bankann í eigu Kaupþings í Bretlandi. Sem kunnugt er var Singer & Friedlander frystur í október með þeim afleiðingum að Kaupþings samstæðan féll. Innistæður í bankanum voru frystar þá og ekki hefur enn verið losað um þær.
Whelan lagði hluta af þeim 190 milljónum punda sem hann fékk fyrir söluna á JJB íþróttavörufyrirtækinu til Chris Ronnie og fjárfestingafélagsins Exista inn á hávaxtareikning í bankanum. Wheelan segir í samtali við Financial Times að hann búist við því að fá peningana til baka.
„Breska ríkisstjórnin hefur sagt að hún muni aðstoða fjárfesta við að fá peningana sína til baka. Ég var bara venjulegur sparifjáreigandi," segir Whelan. Hann bætti því jafnframt við að hann hefði áhuga á að kaupa heilsuræktarstöðvar JJB sem eru nú í söluferli.

