Fótbolti

AC Milan leggur fram kauptilboð í Huntelaar og Fabiano

Ómar Þorgeirsson skrifar
Klaas-Jan Huntelaar.
Klaas-Jan Huntelaar. Nordic photos/AFP

Forráðamenn AC Milan eru tilbúnir að ráðstafa hluta af fjármagninu sem fékkst fyrir söluna á Kaka til Real Madrid til þess að fá nýjan framherja til félagsins.

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, staðfesti í gærkvöld að félagið væri þegar búið að leggja fram kauptilboð í framherjana Klaas-Jan Huntelaar hjá Real Madrid og Luis Fabiano hjá Sevilla en væri búið að gefa upp vonina að fá Samuel Eto'o frá Barcelona.

„Milan hefur sent kauptilboð í Huntelaar og Fabiano en það er alls óvíst hvort að eitthvað komi út úr því. Eyðsla Real Madrid í sumar hefur gert það að verkum að verð á leikmönnum hafa rokið upp um helming frá því í fyrra. Eto'o er vissulega frábær leikmaður en hann er of dýr hvað varðar kaup og kjör og við eigum ekki von á því að fá hann," segir Galliani.

Huntelaar kom aðeins til Real Madrid í janúar og skoraði 8 mörk í 20 leikjum með félaginu á síðustu leiktíð en eftir kaupæði félagsins í sumar hefur hann færst aftar í goggunarröðina og Madridingar gætu verið reiðubúnir að losa sig við hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×