Erlent

Hvar í helv... er klósettpappírinn?

Óli Tynes skrifar
WHAT?????
WHAT?????
Starfsmenn í Stjórnsýslumiðstöð breska ríkisins í West Midlands eru öskureiðir yfir því að búið er að setja upp tímamæla sem slökkva ljós á klósettum miðstöðvarinnar eftir tíu mínútur.

Þetta er gert til þess að spara orku. Starfsmaður sem breska blaðið Daily Telegraph talaði við sagði að þeir hefðu fullan skilning á því að ríkisstjórnin vilji spara orku.

Starfsmenn hafi hinsvegar þegar verið búnir að bregðast við þessu með því að gera að reglu að slökkva alltaf ljósin þegar þeir yfirgæfu klósettin.

Frá hvaða plánetu?

Þessi aðgerð væri bæði niðurlægjandi og skammarleg. -Geturðu ímyndað þér hversu niðurlægjandi það er að sitja inni í básnum þegar ljósin allt í einu slökkna? Þú þarft að fálma um í myrkrinu til þess að finna það sem þig vanhagar um.

Svo þarft þú að þreifa þér leið út að hurðinni þar sem slökkvarinn er. Og þín heitasta ósk er að það komi ekki einhver inn og sjái þig með buxurnar á hælunum.

Talskona stjórnsýslumiðstöðvarinnar sagði að verið væri að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar um að minnka orkunotkun eins og mögulegt sé.

Talskona Samtaka skattgreiðenda gefur lítið fyrir þá skýringu: -Frá hvaða plánetu eru eiginlega ríkisforstjórarnir ef þeir halda að þessi hlægilegi tímamælir samsvari orkusparnaði?

-Kannski hafa ríkisforstjórarnir ekki nóg að gera ef þeir eru að dreyma upp sparnaðarleiðir sem líkjast meira prakkarastrikum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×