Innlent

Líklegra að Jón Gnarr verði borgarstjóri en Sóley Tómasdóttir

Breki Logason skrifar
Það er líklegra að Jón Gnarr verði borgarstjóri heldur en Sóley Tómasdóttir.
Það er líklegra að Jón Gnarr verði borgarstjóri heldur en Sóley Tómasdóttir.

Veðmálafyrirtækið Betsson ætlar ekki að láta komandi sveitstjórnarkosningar á Íslandi framhjá sér fara. Meðal annars er hægt að veðja á hver verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Líklegast er að Dagur eða Hanna Birna hljóti nafnbótina samkvæmt veðmálasíðunni.

Veðmálafyrirtækið Betsson er hvað þekktast fyrir að standa fyrir veðmálum á íþróttatengdum viðburðum. Þó er hægt að veðja á ýmislegt og nú eru það kosningarnar sem eru mönnum ofarlega í huga. Hægt er að leggja undir á úrslit í hinum ýmsu sveitarfélögum en það er Reykjavík sem vekur hvað mesta athygli.

Samkvæmt Betsson eru mestu líkur á því að kjörsókn í Reykjavík verði á bilinu 65-70 prósent eða 80-85% en stuðullinn þar er 6. Minnstar líkur eru á að 70-75% Reykvíkinga mæti á kjörstað, en þar er stuðullinn 3.

Besti flokkurinn er Betsson mönnum ofarlega í huga en hægt er að veðja á hversu mikið fylgi flokkurinn fær. Þeir sem telja að hann fái 5-10% fylgi gætu grætt vel því stuðullinn þar er fimmtán á meðan hann er fimm á 35-40% fylgi.

Loks er veðmál um hver verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Mestar líkur eru taldar á því að það verði oddviti Samfylkingarinnar eða Sjálfstæðisflokksins en stuðullinn er þrír á Dag og Hönnu Birnu.

Stuðullinn fjórir er á Jón Gnarr og átta á einhvern utanaðkomandi. Litlar líkur eru taldar á að Sóley Tómasdóttir verði næsti borgarstjóri, en þeir sem veðja á það fá stuðulinn fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×