Roy Hodgson, stjóri Liverpool, var alls ekki nógu sáttur við hvernig hans menn fóru með færin gegn Trabzonspor í Evrópudeildinni í kvöld.
Liverpool vann leikinn, 1-0, en fékk tækifæri til þess að skora fleiri mörk.
"Mér fannst við eiga skilið að skora fleiri mörk. Við klúðruðum víti og ef það gerist verður maður að kenna sjálfum sér um. Svo var dæmt mark af okkur sem var vafasamur dómur," sagði Hodgson.
"Miðað við hvernig við spiluðum í seinni hálfleik þá áttum við að skora aftur. Þá hefði ferðalagið til Tyrklands orðið aðeins þægilegra. Mörkin komu ekki og því verður sú ferð afar erfið."