Skoðun

Hugmyndafræði Hitlers?

Baldur Þórhallson skrifar
Evrópusambandið var stofnað til að koma í veg fyrir að hildarleikur seinni heimsstyrjaldar gæti endurtekið sig í Evrópu. Markmið var að koma á varanlegum friði í álfunni eftir margra alda róstur. ESB byggir á grunngildum lýðræðis, mannréttinda, frjáls hagkerfis og réttláts ríkisvalds.

Þjóðríkin sem stofnuðu sambandið, Lúxemborg, Belgía, Holland, Frakkland, Ítalía og Þýskaland, ákváðu í upphafi að taka sameiginlegar ákvarðanir í málefnum kola- og stáliðnaðarins sem voru mikilvægar stoðir hagkerfisins. Svo vel tókst til að fáum árum síðar var ákveðið að koma á sameiginlegum markaði ríkjanna. Ríkin deilu með sér völdum á afmörkuðum sviðum til að tryggja frjáls viðskipti og stuðning við þá sem þurfa þótti, eins og bændur og sjómenn.

Þjóðríkin hafa síðan ákveðið að taka sameiginlegar ákvarðanir á fleiri sviðum eins og í umhverfis- og uppbyggingarmálum. Þau hafa talið að samvinna á þessum sviðum skili meiru en sundrung.

ESB hefur ekki eingöngu tekist ætlunarverk sitt að tryggja frið innan sinna vébanda heldur hefur því tekist að stuðla að auknu lýðræði og aukinni virðingu fyrir mannréttindum í álfunni allri. Samvinna þjóðríkjanna innan ESB hefur auk þess skilað sér í betri lífskjörum fyrir almenna borgara og gert Evrópu samkeppnishæfari á heimsmarkaði. Bretar sóttust til að mynda fljótlega eftir inngöngu í sambandið þegar ljóst var að hagur ríkja innan sambands var mun betri en þeirra sem fyrir utan það stóðu. Í dag hafa flest þjóðríki Evrópu gengið í sambandið. Þau sem ekki hafa þegar gert það stefna flest að inngöngu.

Það er líka ESB að þakka að við Íslendingar getum ferðast frjálsir, unnið hvar sem er og sótt menntun í Evrópu. Þetta gerist ekki sjálfkrafa. Full þátttaka í samvinnu ríkja innan sambandsins mun enn bæta aðstöðu okkar hvað þetta varðar, stórbæta lífskjör og samkeppnisstöðu fyrirtækja svo fátt eitt sé nefnt. Áratuga samvinna þjóðríkjanna innan ESB sýnir þetta sem og fjöldinn allur af rannsóknum sem gerðar hafa verið. Við munum einnig hafa áhrif á þá löggjöf sem sett er af sambandinu hér á landi. Í dag er það óvinnandi vegur vegna skipulags EES.

Þegar þingmaður líkir ESB við ríki nasista og segir það byggja á hugmyndafræði Hitlers setur mann hljóðan.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×