Skoðun

Agnes og Halldór

Sóley Tómasdóttir var kölluð kvenfasisti fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Ég hélt að þetta væri einsdæmi. Sá sem skrifaði svona um Sóleyju var Agnes Bragadóttir sem mun enn vera blaðamaður við Morgunblaðið. Nú hefur nýr maður ákveðið að feta í fótspor Agnesar Bragadóttur. Hann heitir Halldór Jónsson og er einn af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Hann kallar umhverfisráðherrann umhverfisfasista og meinvætt.

Nú vill svo til að málið er skylt undirrituðum en engu að síður leyfir hann sér að spyrja: Er þetta viti borin eðlileg og viðurkennd umræðuaðferð á Íslandi? Ekki hefur undirritaður orðið var við að neinum hafi blöskrað sem bendir til þess reyndar að enginn eða fáir taki mark á þessum ofbeldisöflum orðsins á Íslandi um þessar mundir. En það breytir ekki því að þessi umræðustíll er fyrir neðan allar hellur og það er fráleitt að láta sem ekkert sé. Hér er verið að jafna þessum tveimur kvenskörungum til verstu stjórnmálaafla sögunnar. Ég veit að það er ekki sanngjarnt.

Ég veit líka að flokkssystkinum þessara einstaklinga, Agnesar og Halldórs, blöskrar þessi málflutningur. Svona talar reyndar fólk sem er illa innrætt eða fólk sem er í vörn. Ég hallast að því síðastnefnda; að þessir einstaklingar séu í vörn og þau finni það en geri sér ekki grein fyrir því.

Umhverfisfasisti og meinvættur var konan kölluð af því að hún vill koma skipulagi á notkun lúpínu. Heilu byggðarlögin eru að breytast í lúpínubreiður þar sem áður var lággróður norðurslóða. Rjúpnastofninn í Hrísey er á flótta. Bæjarstjórnir hafa ákveðið að grípa til róttækra ráðstafana. Þá ætla bandamenn Halldórs Jónssonar að ærast; hvað er að? Væri hægt að biðja um hófstillta útskýringu á því hvers vegna ofsinn er svona yfirgengilegur?

Á undanförnum misserum hef ég orðið var við allsérkennilegar og rætnar persónulegar árásir. Að skoða þær er líkast því að sjá ofan í opin holræsi; fnykurinn er eftir því. Fyrir mörgum áratugum var ákveðið að loka holræsum af tillitssemi við mannkynið. Nú er sums staðar verið að opna þau á vefnum. Óþverrinn liðast fram engum til geðs.

En þær konur sem hér hafa verið nefndar mega reyndar vera stoltar af subbuskapnum í þeirra garð; margt bendir til þess að það sé eins og viðurkenning að þessi flokkssystkini varpi á mann orði. Þau Agnes og Halldór.

En það væri samt betra að talast við með rökum en ekki ruddaskap.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×