Fótbolti

Umboðsmaður Maicon ósáttur

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Maicon, leikmaður Inter Milan.
Maicon, leikmaður Inter Milan.

Umboðsmaður Maicon sem spilar með Inter er allt annað en sáttur við félagið en framtíð leikmannsins hefur verið í óvissu eftir að Jose Mourinho hætti sem þjálfari og tók við Real Madrid.

Maicon hefur verið orðaður við Real Madrid og sagður fara á eftir gamla þjálfaranum sínum. Maicon er á heimleið frá Suður Afríku eftir að brasilíska landsliðið féll úr leik á HM.

„Ég spyr, hvar eru stjórnendur félagsins. Þeir sýna honum enga virðingu og hafa ekki enn talað við hann. Það eru auðvitað mörg mál sem þarf að leysa en ótrúlegt er að þeir skuli ekki eiga fimm mínútur fyrir Maicon," sagði Antonio Caliendo umboðsmaður hans í sjónvarpsviðtali.

„Svona hlutir fá mann til að hugsa. Maicon fær engan forgang og ég get ekki lesið hugsanir þeirra og vitað áætlanir þeirra."

Umboðsmaður hans segir að Maicon sé augljóslega á sölulista samkvæmt Moratti forseta félagsins.

„Ég er að lesa í blöðunum það sem Massimo Moratti forseti Inter er að segja. Hann hefur sett verðmiða á Maicon sem er 35 milljónir evra og það þýðir að hann sé á markaðnum. Leikmaðurinn þarf að fá að tjá sig sjálfur, Inter sýnir honum enga virðingu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×