Skoðun

Eiga allir að heimta 25% hækkun?

Þórir Garðarsson skrifar um kjaradeilu.

Það er algjörlega óþolandi fyrir okkur sem störfum í ferðaþjónustunni að horfa upp á það hvernig flugvirkjar misnota verkfallsvopnið þessa dagana. Þeir krefjast 25% kauphækkunar á línuna, og ef ekki verður gengið að því stöðvast allt flug Icelandair á mánudagsmorguninn í heila viku.

Í fyrsta lagi er þessi krafa algjörlega úr takti við allt annað í íslensku samfélagi um þessar mundir. Formaður samninganefndar þeirra viðurkennir það meira að segja fúslega sjálfur í fjölmiðlum í gær. Hann rökstyður þetta þannig að flugvirkjar eigi engan þátt í einhverjum þjóðarsáttarsamningum og að þjóðarsáttin sé úr takti við raunveruleikann! Einmitt. Þetta er kannski lausnin á vandamálum Íslendinga nú: Við hækkum bara laun okkar allra um 25%, og þá getum við öll staðið í skilum með húsnæðislánin okkar og Icesave! Ekki veit ég í hvaða takti leiðtogar flugvirkja eru, en þeir eru ekki tengdir við raunveruleikann. Auðvitað getur ein stétt ekki fengið gríðarlega launahækkun án þess að aðrir vilji fá það sama, og svo koll af kolli.

Í öðru lagi er það svo, að verkfall þessa fámenna hóps sem stöðvar flug Icelandair, hefur mikil áhrif á fjölda fyrirtækja og einstaklinga sem hafa ekkert með þessa deilu að gera. Langflestir erlendir ferðamenn sem koma til landsins fljúga hingað með Icelandair og þeir munu einfaldlega ekki komast til landsins eða frá því. Ekki frekar en Íslendingarnir sem eiga bókuð flug.

Mitt fyrirtæki mun missa af hundruðum viðskiptavina í næstu viku og miklum tekjum og hið sama gildir um veitingastaði, hótel og aðra þjónustuaðila víða um landið þar sem ferðamenn fara um og eiga viðskipti.

Ég skora á forsvarsmenn flugvirkja að hætta þessu rugli og ganga frá samningum sem eru í takti við raunveruleikann. Og ég skora á Icelandair að sýna þessum hópi sanngirni og forða verkfalli.

Höfundur er sölu- og markaðsstjóri Iceland Excursions.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×