Fótbolti

Juventus búið að stela þjálfara Sampdoria - Del Neri ráðinn til Juve

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luigi Del Neri, fyrrum þjálfari Sampdoria.
Luigi Del Neri, fyrrum þjálfari Sampdoria. Mynd/AFP
Luigi Del Neri, þjálfari Sampdoria, verður næsti þjálfari Juventus en þetta var tilkynnt aðeins nokkrum dögum eftir að Del Neri stýrði Sampdoria inn í Meistaradeildina í lokaumferð ítölsku deildarinnar. Juventus er því búið að næla í þjálfara spútnikliðsins í ítölsku deildinni á þessu tímabili.

Del Neri tekur við af forfalla-þjálfaranum Alberto Zaccheroni sem stýrði Juventus-liðinu fram á vor eftir að Ciro Ferrara var rekinn frá félaginu í lok janúar. Del Neri er 59 ára gamall og var á sínu fyrsta ári með Sampdoria en hefur áður þjálfað lið eins og AS Roma, Palermo,Chievo og Atalanta.

Sampdoria vann lið eins og Inter Milan, AC Milan, AS Roma og Juventus á lokasprettinum og hafði betur í baráttunni við Palermo í baráttunni um fjórða og síðasta sætið inn í Meistaradeildina. Juventus-liðið komst í Evrópudeildina en það voru mikil vonbrigði að liðið endaði ekki ofar en í 7. sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×