Jón Hilmar Hallgrímsson, sem var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna meints kynþáttahaturs og hótana gagnvart kúberskum feðgum var ekki viðstaddur þegar eignaspjöll voru framin á heimili feðganna og hann er blessunarlega laus við kynþáttafordóma. Þetta segir lögmaður Jóns, Sveinn Andri Sveinsson, í yfirlýsingu sem hann hefur sent fjölmiðlum.
„Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun undanafarinna daga sér undirritaður f.h. Jóns Hilmars Hallgrímssonar sig tilneyddan til þess að koma að athugasemdum vegna sérlega óvandaðs fréttaflutnings í fjölmiðlum í tilefni af meintum kynþáttaofsóknum gegn Íslendingum af kúbverskum uppruna," segir Sveinn Andri.
Hann segir tildrög málsins vera erjur milli hópa ungmenna í Menntaskólanum í Kópavogi. „Ungur frændi Jóns Hilmars var í öðrum hópnum og hafði samband við Jón þar sem honum stóð stuggur af þeim hópi ungmenna sem tekið hafði sér stöðu með hinum kúbverska dreng."

Sveinn segir að Jón hafi hringt í kúbverska piltinn til þess að freista þess að róa málin en að hann hafi ekki haft erindi sem erfiði.
„Í fjölmiðlum hefur tveimur staðhæfingum verið slegið fram sem staðreyndum; annars vegar að umbj. minn hafi ráðist inn á heimili hinnar kúbversku fjölskyldu og framið þar eignaspjöll og hins vegar að hann hafi haft í hótunum við piltinn kúbverska," segir Sveinn Andri ennfremur.
„Í tvö skipti voru framin eignaspjöll; í fyrra skiptið var á ferðinni hópur unglinga með golfkylfur og fleiri áhöld og brutu rúður í húsinu. Í síðara skiptið var útihurð brotin upp með slökkviliðstæki."
Sveinn segir það liggja fyrir að Jón Hilmar hafi í hvorugt skiptið verið nálægt umræddu húsi og ljóst að umræddir aðilar hafi ekki verið á vegum Jóns eða að gera eitthvað að hans beiðni.
„Jón Hilmar hefur aldrei haft í hótunum við hina kúbversku fjölskyldu, hvorki fyrr né síðar. Þvert á móti reyndi hann að stilla til friðar en uppskar aðeins hótanir og svívirðingar," segir Sveinn einnig og bætir því við að Jón sé „blessunarlega laus við fordóma í garð fólks af öðrum kynþætti eða þjóðerni og það síðasta sem hann myndi gera væri að kynda undir kynþáttaofsóknum."