Innlent

Vill að Dagur víki

Karl Th. Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, vill að Dagur B. Eggertsson, oddviti flokksins í Reykjavík, víki í ljósi slæmra úrslita í kosningunum um helgina. Karl segir að úrslitin séu þau langverstu í sögu Samfylkingarinnar.

Í pistli á vefnum Herðubreið segir Karl að mánuði fyrir kosningarnar hafi 30% Reykvíkinga viljað að Dagur yrði borgarstjóri, en um 37% hafi viljað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins.

Forysta um breytingar

„Hófst þá kosningabaráttan. Þegar henni lauk vildu 20 prósent borgarbúa Dag í embættið, en 40 prósent Hönnu Birnu, allnokkru fleiri en vildu Jón Gnarr. Þetta er því miður saga kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir síðustu tvennar borgarstjórnarkosningar. Flokkurinn gerði fátt annað en að tapa fylgi eftir að baráttan hófst," segir Karl.

Þá vitnar Karl í orð Dags um að rökrétt og mikilvægt væri að Samfylkingin hefðu forystu um breytingar.

„Hvernig væri nú að oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík íhugaði sína stöðu - því varla hefur hann náð þeim árangri sem hann ætlaði, hvorki nú né árið 2006? -, stæði upp úr sæti sínu og hleypti Hjálmari Sveinssyni að í borgarstjórn?" spyr Karl og vitnar til þess að Hjálmar Sveinsson, fjórði maður á lista Samfylkingarinnar, sagðist um helgina íhuga stöðu sína í ljósi þess að hann hafi ekki náð kjöri sem aðalmaður í borgarstjórn.

Raunverulegt innihald

„Það væri sannarlega að bregðast við kröfum um breytingar. Það væri sannarlega að hafa forystu um breytingar. Og það sem meira er: Í slíkri breytingu væri fólgið raunverulegt innihald," segir Karl í pistlinum sem hægt er að lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×