Innlent

Segja fjórflokkinn þagga niður flugvallarmálið

Reykjavíkurframboðið, eða E-listinn, sem berst fyrir því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri, telur að fjórflokkurinn sé leynt og ljóst að festa flugvöllinn í sessi og hafi sammælst um að ræða ekki flugvallarmálið fyrir þessar kosningar.

Listinn vill að borgin taki allt að 25 milljarða króna lán og veðsetji flugvallarsvæðið. Með peningunum verði allar skerðingar á þjónustu borgarinnar teknar til baka og kreppunni eytt. Lóðirnar í Vatnsmýri verði svo seldar hæstbjóðanda.

Aðstandendur listans vilja loka flugvellinum helst innan fjögurra ára og treysta því ekki að áformum aðalskipulags, um að flugvöllurinn byrji að víkja árið 2016, verði framfylgt.

Örn Sigurðsson arkitekt, helsti frumkvöðull framboðsins, segir greinilegt að fjórflokkurinn hafi sammælst um að ræða ekki flugvallarmálið fyrir þessar kosningar. Kveðst Örn hafa grun um að við endurskoðun aðalskipulags til ársins 2030, sem nú stendur yfir, verði áfram gert ráð fyrir flugvellinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×