Maður sem lifði af flugslys í Lýðveldinu Kongó í ágúst síðastliðnum segir að krókódíll hafi valdið því. Tuttugu manns fórust. Vélin var lítil 20 farþega skrúfuþota framleidd í Tékklandi. Það eru taldar ágætis flugvélar en breskur flugmaður viðkomandi vélar hafði lýst áhyggjum við vin sinn um að viðhald hennar væri skelfilega lélegt.
Breski flugmaðurinn fórst ásamt nítján öðrum. Aðeins einn maður komst lífs af úr slysinu. Hann segir að þegar vélin var komin á loft hafi losnað stór krókódíll sem var geymdur í poka aftast í henni.
Hann hafi komið hvæsandi fram ganginn og þá hafi mikil skelfing gripið um sig meðal farþeganna. Þeir hafi forðað sér frameftir vélinni. Við það hafi þyngdarpunktur hennar breyst mjög skyndilega og flugmennirnir misst stjórn á henni.