Innlent

The Wire og Ray Ban geta leitt til meirihlutasamstarfs

Hafsteinn Hauksson skrifar

Ekki er útlit fyrir annað en að tveir eða fleiri flokkar myndi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur að kosningum loknum.

Nýjustu kannanir á fylgi flokkanna í Reykjavík benda til þess að enginn þeirra nái hreinum meirihluta í borgarstjórn. Ef sú verður raunin stendur upp á formenn flokkanna að mynda meirihlutasamstarf tveggja eða fleiri flokka.

Núverandi borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir úr Sjálfstæðisflokki, segist ekki eiga sér neinn óskameirihluta og treystir sér til að vinna með öllum mótframbjóðendunum. Þeir eru hins vegar ekki allir tilbúnir að vinna með henni, en Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu segir Sjálfstæðisflokkinn þurfa frí. Sóley Tómasdóttir, Vinstri grænum, segir stefnu Sjálfstæðisflokks og síns flokks illsamræmanlega.

Einar Skúlason, Framsókn, segist ekki útiloka neinn og er tilbúinn að vinna með öðrum með svipaðar áherslur. Sömu svör gefur Haraldur Baldursson úr Frjálslyndum.

Baldvin Jónsson úr Reykjavíkurframboðinu segir að sér þætti mjög heillandi að starfa með Besta flokknum að því að koma á nýrri pólitík í Reykjavík. Það er þá eins gott að hann horfi á sjónvarpsþáttinn The Wire og eigi Ray Ban sólgleraugu, því það eru einu ófrávíkjanlegu skilyrði Jóns Gnarrs úr Besta flokknum fyrir samstarfi.

Eini maðurinn sem segist nákvæmlega sama hvort hann verði með í meirihluta eða starfi áfram í minnihluta er Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans, sem segist einfaldlega standa fyrir sín málefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×