Keflvíkingar hafa nú tapað tvisvar fyrir Snæfelli á fjórum dögum. Þeir töpuðu 64-90 í Toyota-sláturhúsinu í dag í undanúrslitum Subway-bikarsins.
„Við vorum að spila hræðilega í þessum tveimur leikjum," sagði Gunnar Einarsson, fyrirliði Keflavíkur.
„Það sjá allir á stigaskorinu í þessum leik hve skelfilega lélegir við vorum. Við gerðum alls ekki okkar besta í þessum leik og komum ekki tilbúnir."
Gunnar segir að Snæfellingar hafi ekki komið sér á óvart í leiknum. „Nei í raun og veru ekki. Við komum sjálfum okkur mest á óvart með hversu rosalega lélega vörn og sókn við spiluðum. Nú einbeitum við okkur bara að deildinni, það er bara eitt markmið eftir," sagði Gunnar.