Fótbolti

Inter Ítalíumeistari - Milito með sigurmarkið

Elvar Geir Magnússon skrifar
Milito fagnar markinu mikilvæga.
Milito fagnar markinu mikilvæga.
Inter varð í dag Ítalíumeistari fimmta árið í röð eftir 1-0 útisigur gegn Siena. Það var Diego Milito sem skoraði markið sem tryggði Inter titilinn á 57. mínútu.

Roma hafði einnig möguleika á titlinum fyrir lokaumferðina en liðið þurfti þá að vinna Chievo og treysta á að Inter myndi misstíga sig gegn Siena.

Roma vann sinn leik 2-0 með mörkum Vucinic og Rossi en þar sem Inter landaði þremur stigum í Siena voru það Jose Mourinho og lærisveinar hans sem fögnuðu í leikslok.

Sigur Inter var ekkert gríðarlega sannfærandi og átti Siena hættulegar sóknir í lokin og hefði getað jafnað metin. Julio Cesar, markvörður Inter, þurfti einu sinni heldur betur að taka á honum stóra sínum í fyrri hálfleiknum.

Inter vann á dögunum ítölsku bikarkeppnina og getur unnið þrennuna á tímabilinu en liðið leikur gegn þýska liðinu FC Bayern í úrslitaleik Meistaradeildarinnar næsta laugardag.

Fyrir lokaumferðina á Ítalíu var ljóst að Atalanta, Siena og Livorno voru fallin niður í Seríu-B.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×