„Menn voru ekki með hausinn skrúfaðan á frá fyrstu mínútu," sagði Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR, virkilega svekktur eftir tapið í kvöld. ÍR-ingar féllu úr leik í Powerade-bikarnum gegn Fjölni í kvöld en þeir töpuðu 112-90 í Seljaskólanum.
„Það segir frekar mikið um spilamennskuna hjá okkur í kvöld þegar Fjölnir nær að skora 62 stig í fyrri hálfleik, vörnin hjá okkur var hræðileg nánast allan leikinn. Þeir fengu að gera það sem þeim sýndist með boltann, hvort sem það voru auðveld sniðskot eða þriggja stiga skot. Fjölnir er með fínt lið en við leyfðum þeim að skína allt of mikið í kvöld," sagði Sveinbjörn.
„Okkur gekk ágætlega í þriðja leikhlutanum og náðum að komast aftur inn í leikinn en náðum ekki að halda haus og nýta okkur þennan góða kafla. Það er ekki hægt að skýla sér á bakvið það að öll orkan hjá okkur hafi farið í að vinna upp forskotið hjá Fölni. Við erum allir í frábæru formi og eigum einfaldlega að gera betur. Liðið á eftir að sýna sitt rétta andlit í vetur og við eigum eftir að gera það," sagði Sveinbjörn.
Körfubolti