Innlent

Kannanirnar ofmátu fylgi Besta flokksins

Skoðanakönnun Capacent Gallup sem birt var í Ríkissjónvarpinu á föstudag komst næst úrslitum sveitarstjórnarkosninganna í Reykjavík af þeim könnunum sem birtar voru opinberlega dagana fyrir kosningarnar.

Þrjár kannanir voru birtar frá miðvikudegi fram á föstudag. Allar ofmátu fylgi Besta flokksins og vanmátu fylgi Sjálfstæðisflokksins, og allar voru ónákvæmari en kannanir fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006.

Könnun Capacent Gallup fyrir Ríkisútvarpið, sem birt var á föstudag, komst í heildina séð næst úrslitum borgarstjórnarkosninganna. Að meðaltali munaði 1,7 prósentustigum á því fylgi sem könnunin mældi hjá hverjum flokki og því sem kom upp úr kjörkössunum. Skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem birt var á fimmtudag, var heldur fjær úrslitunum. Að meðaltali munaði 2,1 prósentustigi á fylgi hvers flokks og kjörfylgi. Morgunblaðið birti á miðvikudag könnun sem Miðlun vann fyrir blaðið. Sú könnun var fjærst úrslitunum, og munaði að meðaltali 2,5 prósentustigum á fylgi hvers flokks í könnuninni og niðurstöðunum á kjördag.

Í öllum könnununum munaði talsverðu á mældu og raunverulegu fylgi Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Munurinn á nákvæmni allra kannananna er meiri en fyrir kosningarnar 2006. Þá munaði að meðaltali 1,3 prósentustigum hjá Gallup, 1,8 prósentustigi hjá Fréttablaðinu og 1,9 prósentum hjá Félagsvísindastofnun. brjann@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×