Njarðvíkingar hafa fengið bandaríska leikstjórnandann Giordan Watson til liðs við sig á reynslu og ætti kappinn að leika sinn fyrsta leik gegn Keflvíkingum á fimmtudagskvöld. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.
Watson þessi er 175 cm á hæð og lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum á árunum 2005-2008 með Central Michigan University. Hann lék svo með Bremerhaven í Þýskalandi í BBL (efsta deild) 2008-2009 en þar var Jeb Ivey einn af liðsfélögum hans, en Ivey lék með Njarðvíkingum 2005-2007.
Watson var svo í Pro A í Þýskalandi síðasta vetur og lék þar með Nordlingen. Í haust fór hann í æfingabúðir með liði í NBDL og hefur svo leikið í deild í Bandaríkjunum það sem af er vetrar.
Giordan Watson var með 15,2 stig og 5,2 stoðsendingar að meðaltali með Nordlingen þar sem að hann hitti úr 30,.7 prósent þriggja stiga skota sinna.
Giordan Watson kemur í staðinn fyrir miðherjann Christopher Smith sem var látinn fara á dögunum. Watson er þriðji bandaríski leikmaður Njarðvíkur á þessu tímabili.
Körfubolti