Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, gat verið mjög ánægður með sitt lið eftir frábæran 18 stiga sigur á Keflavík í Toyota-höllinni í kvöld. KR-liðið hefur þar með unnið fjóra fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni og getur sópað út öðru Reykjanesbæjarliðinu í röð með sigri í þriðja leiknum á föstudagskvöldið.
„Þetta var einstaklega mikilvægur sigur og ég hefði sætt mig við það að spila illa og fara hér út með eins stigs sigur. Þetta var alvöru leikur, útileikur á móti frábæru liði og það eru svona leikir sem við þurfum að taka ef við ætlum okkur að gera eitthvað," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, eftir leikinn.
„Við lögðum mikla áherslu á það í byrjun að keyra upp hraðann og vörnin fékk að gjalda svolítið fyrir það í fyrsta leikhlutanum. Við vorum ánægðir með að ná leiknum í þetta tempó en það var leiðinlegt að missa niður vörnina í byrjun þriðja leikhluta. Fyrir byrjun annars leikhluta og í gegnum leikinn, fyrir utan þennan sex mínútna kafla í þriðja leikhluta þá var ég mjög ánægður með varnarleikinn," sagði Hrafn,
„Við erum ekki búnir að gera neitt ennþá og erum ekki búnir að klára þettaþ. Við erum að spila við lið sem hefur komið til baka áður. Þeir hafa áður verið 2-0 undir og allir búnir að afskrifa þá. Þeir þekkja það að vera með bakið upp að veggnum og koma til baka. Ég býst við erfiðari leik á föstudaginn en í kvöld," sagði Hrafn en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.
Körfubolti