Sport

Óðinn var stjarnan á JJ-móti Ármanns í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Björn Þorsteinsson.
Óðinn Björn Þorsteinsson. Mynd/Anton
FH-ingurinn Óðinn Björn Þorsteinsson náði bestum árangri á JJ-móti Ármanns sem fór fram á Laugardalsvellinum í gær. Helga Margrét Þorsteinsdóttir og Ásdís Hjálmsdóttir sigruðu báðar í sínum greinum en voru aðeins frá sínu besta. Fremur kalt var í veðri sem hafði greinileg áhrif á árangur, sérstaklega í spretthlaups- og tæknigreinum.

Óðinn Björn jafnaði sinn besta árangur utanhúss með því að kasta kúlunni 19,37 metra en hann sýndi í gærkvöldi að hann er í góðu formi og gæti bætt sinn árangur í sumar.

Guðmundur Hólmar Jónsson úr Ármanni náði einnig mjög góðum árangri í spjótkasti. Hann þeytti spjótinu 71,27 metra sem er hans næst besti árangur frá upphafi í greininni.

Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármnni vann spjótkast kvenna með kast upp á 57,10 metra. Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni fór rólega af stað í 100 m grindarhlaupi en hún kom fyrst í mark á tímanum 15,11 sekúndum. Hún sigraði einnig í kúluvarpi með kasti upp á 14,08 metra og hástökki með stökk yfir 1,71 metra.

Af öðrum árangri má nefna að Sveinn Elías Elíasson úr Fjölni sigraði í 100 m hlaupi á 11,05 sekúndumsem er góð byrjun á tímabilinu hjá honum.

Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr USÚ sigraði í langstökki með stökki upp á 5,70 metra.

JJ-mót Ármanns hefur verið haldið um árabil. Mótið er minningarmót um Jóhann Jóhannesson sem var formaður frjálsíþróttadeildar Ármanns í áratugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×