Gosmökkurinn frá Grímsvötnum í Vatnajökli sést víða og hefur risið hratt frá því að hans varð vart. Íbúar á Selfossi, Laugarvatni og Flúðum eru meðal þeirra sem haft hafa samband við fréttastofu síðustu mínútur. Samkvæmt sjónarvottum á Flúðum er mökkurinn dökkur neðst en að mestu hvítur. Samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum sést mökkurinn einnig frá Skaftafelli, Vík og víðar á Suðurlandi.
Í kvöld verður flogið með vísindamenn yfir svæðið og aðstæður kannaðar. Víðir Reynisson, hjá almannavörnum Ríkislögreglustjóra, segir í samtali við Vísi ómögulegt að segja til um það hversu mikið gosið er. Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004.
Vísir segir frekari fréttir af gangi mála þegar þær berast.

