Fótbolti

Hannes: Hef aldrei verið eins glaður eftir tapleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Mynd/Stefán
Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, var í viðtali í KR-útvarpinu eftir leikinn á móti Zilina í kvöld. Hann og félagar hans héldu út og komust áfram í 3. umferð í undankeppni Evrópudeildarinnar þrátt fyrir 0-2 tap þar sem fyrri leikurinn vannst 3-0 á KR-vellinum fyrir viku síðan.

„Ég er ekki vanur að sleppa inn tveimur mörkum en ég held að ég hafi aldrei verið eins glaður eftir tapleik. Þetta var æðislegt en ég held líka að ég hafi aldrei spilað leik sem var eins lengi að líða. Þetta var rosalegt," sagði Hannes í viðtali við Boga Ágústsson.

„Annað markið þeirra var slysalegt hjá okkur og við hefðum viljað hanga á þessu eina marki og eiga þar með eitt til góða. Þeir settu allt í þetta í lokin og voru með alla sína leikmenn inn í teig síðustu tíu mínúturnar. Það var svakalega erfitt að halda þeim frá okkur," sagði Hannes.

„Við börðumst eins og stríðsmenn og gerðum þetta frábærlega að fá ekki fleiri mörk á okkur. Við erum í skýjunum með þetta. Þeir reyndu allt sem þeir gátu en það dugði ekki til," sagði Hannes.

„Við héldum þeim í skefjum og lönduðum þarna glæsilegum sigri í þessu einvígi. Við höfum aldrei sungið jafnlengi inn í klefa eftir leik og við erum í í skýjunum með þetta. Þetta er frábær árangur og það sást betur í þessum leik hversu góðir þeir eru. Þeir eru alveg fáránlega góðir," sagði Hannes.

„Þetta er svakalegt afrek og ég vildi óska þess að það hefði verið einhverjir íslenskir áhorfendur úti með okkur til að upplifa þetta," sagði Hannes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×