Fótbolti

KR-ingar héldu út í Slóvakíu og komust áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson og Óskar Örn Hauksson.
Bjarni Guðjónsson og Óskar Örn Hauksson. Mynd/Stefán
KR-ingar eru komnir áfram í 3. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta þrátt fyrir 0-2 tap á móti slóvakíska liðinu Zilina í kvöld. KR vann fyrri leikinn 3-0 og vann því 3-2 samanlagt.

KR mætir georgíska liðinu Dinamo Tbilisi í næstu umferð en Dinamo Tbilisi vann 5-0 sigur í síðari leik sínum á móti velska liðinu Llanelli.

KR-ingar voru í miklum vandræðum síðustu tuttugu mínúturnar eftir að Zilina komst í 2-0 á 70. mínútu leiksins. Slóvakarnir voru í stórsókn á lokakaflanum og oft skall hurð nærri hælum. KR-liðið hélt hinsvegar út og fögnuðu gríðarlega í leikslok þegar norski dómari leiksins flautaði til leiksloka.

Tomas Majtán kom Zilina í 1-0 á 29. mínútu leiksins en það var varamaðurinn Momodou Ceesay sem skoraði seinna markið.

Zilina hafði komist langt í Evrópukeppninni síðustu tvö tímabil, í riðlakeppni Evrópudeildarinnar 2009-10 og svo í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili. Það er því mikið afrek hjá KR að slá þetta sterka lið út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×