Fótbolti

Sigrar hjá Eggerti og Jóhanni - Stoke og Fulham áfram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eggert Gunnþór og félagar í Hearts eru einni umferð frá sæti í riðlakeppni Evrópudeildar.
Eggert Gunnþór og félagar í Hearts eru einni umferð frá sæti í riðlakeppni Evrópudeildar. Mynd/Anton
Ensku úrvalsdeildarliðin Stoke og Fulham tryggðu sig áfram í 4. umferð undankeppni Evrópudeildar í kvöld. Sömu sögu er að segja um Eggert Gunnþór Jónsson og félaga í Hearts auk AZ Alkmaar félags Jóhanns Bergs Guðmundssonar.

Stoke vann 1-0 útisigur á Hadjuk Split í Króatíu með sjálfsmarki undir lok leiksins. Stoke vann fyrri leikinn í Englandi 1-0 og einvígið því samanlagt 2-0.

Fulham sló einnig út króatískan andstæðing í kvöld, RNK Split. Leikurinn fór fram á Craven Cottage í Lundúnum og höfðu heimamenn 2-0 sigur. Andy Johnson og Danny Murphy skoruðu mörkin. Fyrri leiknum í Króatíu lauk með markalusu jafntefli.

Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn með Hearts sem burstaði Paks frá Ungverjalandi 4-1 í Edinborg. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Skoska liðið vann því einvígið 5-2 samanlagt. Leikurinn var sá fyrsti sem Hearts spilar undir stjórn Portúgalans Paulo Sergio.

Þá kom Jóhann Berg Guðmundsson inná sem varamaður í síðari hálfleik þegar AZ Alkmaar gerði 1-1 jafntefli gegn Jablonec frá Tékklandi ytra. Jóhann skoraði annað af mörkum Alkmaar í 2-0 sigri í fyrri leiknum. Alkmaar fer áfram 3-1 samanlagt.

Dregið verður í fjórðu umferð keppninnar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×