ÍR-ingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir því að vinna botnlið Vals í Vodafone-höllinni í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld. ÍR vann leikinn með 92-86 en Valsmenn, sem hafa tapað öllum tólf leikjum sínum á tímabilinu, lögðuðu stöðuna í lokin með því að vinna fjórða leikhlutann 32-13.
Valsmenn réðu lítið við þríeykið James Bartolotta, Nemanja Sovic og Robert Jarvis í kvöld en þeir skoruðu allir yfir tuttugu stig. Bartolotta og Jarvis voru báðir með 24 stig og Sovic skoraði 21 stig þar af 16 þeirra í fyrri hálfleik. Hjalti Friðriksson skoraði mest íslensku strákanna eða 10 stig.
Garrison Johnson skoraði 23 stig fyrir Val og þeir Darnell Hugee og Igor Tratnik voru báðir með 21 stig. Birgir Björn Pétursson skoraði mest íslensku leikmannanna eða 9 stig.
ÍR-ingar tóku frumkvæðið frá fyrstu mínútu og voru komnir í 9-4 eftir tvær mínútur. ÍR náði mest fimmtán stiga forskot í fyrsta leikhlutanum en vann hann á endanum 30-17.
ÍR-ingar héldu áfram öruggu forskoti í öðrum leikhlutanum og voru með 20 stiga forskot í hálfleik, 54-34. Nemanja Sovic var kominn með sextán stig eftir fyrri hálfleikinn en hann hitti úr 6 af 9 skotum í hálfleiknum.
Valsmenn náðu ekki að minnka muninn í þriðja leikhlutanum sem ÍR-liðið vann 25-20 og var því komið með 25 stig forskot fyrir lokaleikhlutann, 79-54. Valsmenn löguðu stöðuna í fjórða leikhlutanum en sigur ÍR var aldrei í hættu.
Valur-ÍR 86-92 (17-30, 17-24, 20-25, 32-13)
Valur: Garrison Johnson 23/9 fráköst/5 stolnir, Igor Tratnik 21/7 fráköst, Darnell Hugee 21, Birgir Björn Pétursson 9, Austin Magnus Bracey 4, Benedikt Blöndal 3, Ragnar Gylfason 3/4 fráköst/5 stoðsendingar, Bjarni Geir Gunnarsson 2.
ÍR: Robert Jarvis 24, James Bartolotta 24/9 fráköst, Nemanja Sovic 21/4 fráköst, Hjalti Friðriksson 10/8 fráköst, Níels Dungal 4, Ellert Arnarson 3, Bjarni Valgeirsson 2, Þorvaldur Hauksson 2, Eiríkur Önundarson 2.
Körfubolti